Góðan daginn góðir hálsar! Held ég byrji færsluna á að tilkynna sigurvegara stærðfræðikeppni síðustu færslu.....Sigrún Magna;-) Til hamingju Sigrún mín, verðlaunin bíða þín hér á Brederodestraat! Það verður þó að segjast að það olli mér töluverðum vonbrigðum hversu fáir lögðu í dæmið en óneitanlega var það fremur flókið svo ætli ykkur fyrirgefist ekki í þetta sinn.
Hér hefur verið vitlaust að gera síðustu daga, einna helst í að finna út úr því hvernig maður fer að því að deyja ekki úr kulda í 200 ára gömlu húsi í Amsterdam, þó svo að enn sé sumar! Elmar hefur unnið að því dag og nótt að reyna að skilja termostatinn hér og einhverja tölvu sem virðist eiga að stjórna honum, og held ég að það sé nú allt að koma hjá honum. Amk var okkur ekki alveg jafn kalt síðustu nætur eins og þær á undan. Hins vegar reynist eldunarmonsterið afar vel, eldaði hafragraut í morgun á mettíma:-)
Í fyrradag skráðum við okkur inn í landið, reyndar kostaði það blóð, svita og tár þar sem maður er ekki alveg farinn að átta sig á vegalengdum hér og ekki alveg með sporvagnakerfið á hreinu. En okkur tókst að komast á staðinn seint og um síðir, blaut af svita og lafmóð. Þá er næst að reyna að fá dótið okkar úr tollinum og stefnt er á leiðangur því tengdum síðar í dag. Það eru óneitanlega viðbrigði fyrir ofalda og ofdekraða íslendinga að koma hingað og þurfa skyndilega að finna út úr almenningssamgöngum, líka þegar allt sem við þurfum að gera er einhversstaðar í rassgati og ekkert tvennt á sama stað.
Okkur var boðið í mat í fyrrakvöld, til Ágústu, Floris og Katrínar dóttur hennar en Ágústa er systir stráks sem var með mér í Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Það var frábært að fá svona matarboð og gaman að kynnast þeim, aldrei að vita nema við reynum að endurgjalda matarboðið áður en langt um líður.
Síðan vorum við að fá frábærar fréttir núna í morgun. Skólinn sem ég var að tala um að koma Alvildu inn í og er hér við hliðina á okkur, ég var að tala við forskólann þar "pre-school" sem er fyrir börn frá 2 og 1/2 til 4 ára og það er laust pláss þar! Það verður hringt í mig út af þessu seinna í dag en mér var sagt að hún kæmist líklega inn núna á næstu tveimur vikum:-) Alvilda er mjög spennt að komast í skóla hérna, við fórum í gær að sækja um "skóla" , þ.e frá 4 ára aldri (þetta er mjög snúið allt saman og eins og ég sagði þarf maður alltaf að fara á marga staði) og þá hafði hún misskilið mig og hélt að hún hefði átt að fara í skólann þá og ég þurfti að fara með hana hágrátandi út af skrifstofunni. Annars er hún búin að vera rosalega góð síðan við komum og ótrúlega þolinmóð að þvælast með okkur hérna út um allt.
Er farin út á svalir að blása á þvottinn okkar svo hann þorni einhvern tíman í rakanum hérna.
Adda
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.