Hún Hólmfríður Anna stórvinkona mína spurði mig í vikunni hvort ég væri ekki á Facebook??? Hvað er nú það, svaraði þá tölvuaulinn Arngerður. Mér varð það á að minnast á þetta Facebook við hann Elmar minn og nú er staðan orðin þannig að við erum bæði komin á fullt í þetta og sitjum hérna saman með rauðvín og kertaljós og leikum okkur á Facebookinu. Áhugasömum er bent á www.facebook.com.
Ég hefi verið beðin um að segja meira frá skólanum hjá Elmari þar sem hann er engan vegin að standa sig í blogginu og verð að sjálfsögðu við þeirri bón. Hann er búinn að vera á masterclass hjá skoskum kennara alla vikuna og var bara mjög ánægður með það en svo byrjar bara kennsla eftir stundaskrá á mánudaginn. Standardinn á fólkinu sem er með honum er mjög hár og sér hann fram á mjög spennandi og skemmtilegan vetur. Get örugglega sagt frá meiru í næstu viku þegar kennslan verður byrjuð hjá honum.
En viðburðir dagsins voru eftirfarandi:
Ég og Alvilda fórum og hittum hana Wendy ofuryndislegu í morgun. Okkur leist bara vel á skólann, það eru 14 börn í þessari deild og 2-3 konur að sjá um þau. Það er alltaf eitthvað þema í gangi og núna næstu vikurnar eru þau að einbeita sér að leiklist, þ.e tjáningu, söng og dansi. En við eigum að mæta á þriðjudaginn kl. 8,30, læt að sjálfsögðu vita hvernig það gengur. Hér verð ég að bæta því við að Hollendingar eru snillingar í pappírsvinnuflóði, Wendy ofuryndislega sendi okkur heim með þvílíkan bunka sem ég eyddi klukkutíma í að fylla út og er enn ekki búin.
Þegar Elmar kom heim úr skólanum eftir hádegið ákváðum við að drífa okkur í tollinn í Schiphol eins og tollurinn í Rotterdam var búinn að segja að við þyrftum að gera. Til að gera langa sögu stutta þá tók það okkur rúma 2 tíma að koma okkur á svæðið og finna rétta húsið sem enginn virtist vita hvar væri, töluðum við megafúlan tollvörð sem eiginlega bara gaf skít í okkur og sagði að hann gæti ekkert gert fyrir okkur, og nennti því greinilega ekki heldur. Við lufsuðumst þaðan út, mjög fúl, komum okkur í lest sem átti að fara niður í miðbæ að því er við héldum, en reyndist þess í stað fara lengst út í sveit þannig að ferðin til baka tók álíka tíma.
Það nýjasta í þessu máli er að við eigum að faxa einhverja pappíra til Rotterdam.......held að við megum teljast heppin ef við verðum búin að fá dótið okkar fyrir jól! Þetta fer nú að verða spurning um neyðar-ferð í H & M.
Athugasemdir
Sæl elskurnar, og til hamingju með "skólann" þinn Alvilda mín. Amma hlakkar til að heyra hvernig þér gengur. Oft hefur maður bölvað tollinum á Íslandi fyrir lélega þjónustu og að vera framúrskarandi leiðinlegir en ég held eftir þessari frásögn að hollenski tollurinn sé öllu verri. Vona að þetta gangi upp hjá ykkur eftir helgina. Kveðjur og knús frá Gaua og Rakel Ingu,( hún var að monta sig yfir að fá 10 í skyndiprófi í RAM í vikunni)
mamma (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 12:38
Fór að dæmi ykkar Hólmfríðar og skráði mig á facebook
Soffía (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 15:05
Komdu sæl !!!
Ég varð yfir mig sæl og ánægð þegar mér áskotnaðist linkurinn að blogginu þínu; þú þarft sem sagt að gera eitthvað róttækara en þetta til að losna við okkur óháðu félagana. Get ekki neitað því að þín er sárt saknað þó að Kári lofi virkilega góðu, enda er einn kórfélagi líklegast hættur og litlir fuglar keppast að því að hann hafi ekki afborið brotthvarf þitt - segi ekki meir......
Ég óska ykkur til hamingju með íbúðina og vona að dvölin þarna úti verði ánægjuleg og góð. Áður en þið vitið af verðið þið farin að flakka um með almenningssamgöngunum þarna eins og innfæddir og verðið hætt að skilja litlu dömuna þegar hún fer að læra hrognamálið af skólafélögunum.
Með kveðju,
Sonja
Sonja Freydís (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 13:04
Hahahahaaa....það er nú ekki svo að ég heldur vilji losna alveg við ykkur elskurnar:-) Þó þykir mér nú að sjálfsögðu leitt að heyra að einhver sé hættur. En mjög gaman að heyra frá þér og takk fyrir hamingjuóskirnar og allt saman. Þú kannski skilar kveðju frá mér á næstu æfingu og þú mátt endilega láta vita af blogginu ef það eru einhverjir sem hafa áhuga á að kíkja á okkur.
Bestu kv. Adda
Arngerður María Árnadóttir, 10.9.2007 kl. 18:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.