Hollendingar hafa greinilega ákveðið að bjóða okkur velkomin í samfélag sitt, og það með stæl! Í dag afhentu þeir mér loksins debetkort og það þýðir að núna get verslað í matinn án þess að þurfa að biðja húsbóndann um pening, sem sagt orðin fjárráða í Hollandi...ekki hægt að kvarta yfir því. Það sem meira er þá hafa þeir einnig kynnt okkur fyrir þjóðaríþrótt sinni, sem er reiðhjólaþjófnaður, en okkur til mikillar gleði stálu einhver góðmenni nýja hjólinu okkar í gær. Það verður nú að segjast eins og er að þeir eru snillingar í þessu, þessar elskur. Gripurinn stóð við stóra götu þar sem alltaf er mikið af fólki, harðlæst með dýrasta og stærsta lásnum sem við fundum í hjólabúðinni plús að þetta var um miðjan dag...en allt kom fyrir ekki, hjólið horfið að eilífu er ég ansi hrædd um. Ætli næsta verkefni okkar sé þá ekki að reyna að finna elsta og ljótasta hjólið í Amsterdam sem enginn mun nenna að stela, held að það sé eina ráðið.
Á laugardaginn söng ég við svo kallað "evensong" í St. Nicolaas kirkjunni. Það var bara mjög skemmtilegt og þá ekki síst sú upplifun að fá að klæðast enskum kórdrengjabúningi sem ég held að slái meira að segja "sloppunum" í Óháða söfnuðinum við....;-) Eins og ég var búin að segja frá hér í síðustu færslu þá átti ég að stjórna einu verki en hálftíma fyrir athöfnina voru þau allt í einu orðin tvö...held þetta hafi þó gengið alveg ágætlega, amk hef ég ekki fengið uppsagnarbréfið í hendurnar ennþá:-)
Á föstudagskvöldð eru Día Anna og Kristen væntanleg og hlökkum við mikið til að fá þau. Lilja og Kristín söngspírur verða síðan í borginni í næstu viku og nokkrum dögum síðar mæta Fjóla frænka Elmars og eiginmaður...sem sagt nóg að gera hjá okkur. Síðan eru amma Della og afi Elli búin að staðfesta að þau ætla að koma til okkar nokkrum dögum fyrir jól, ná sýningu hjá Elmari og vera svo hjá okkur um jólin og eigum við án efa eftir að hafa það afskaplega notalegt hérna saman.
Af mínum orgelmálum er lítið nýtt að frétta, ætlaði að vera hætt að ferðast til Zaandam en þar sem ég hef ekki enn fengið lykil af kirkjunni hér þá tók ég þríþrautina upp aftur núna í vikunni. Það er alltaf meira og meira að gera hjá Elmari í skólanum, verður eitthvað í tímum allar helgar líka að ég held fram að jólum...talandi um jól, það eru 2 eða 3 vikur síðan það var farið að setja upp jólaljósin niður í bæ og allar búðir að fyllast af jóladóti, og ég hélt að við værum alltaf svo svakalega snemma í þessu á Íslandi.
Alvildu langar afskaplega mikið í slátur, framleiðir skartgripi úr perlum af miklum móð og er einnig orðin mikil áhugamanneskja um ballett. Nonni frændi ætlar að vera svo yndislegur að færa henni sláturkeppi þegar hann kemur í næstu viku, hef sjaldan séð hana verða jafn glaða eins og þegar ég sagði henni frá því:-)
Svona er sem sagt Holland í dag. Góðar stundir!
Athugasemdir
Það væri gaman að sjá múnderingu kórfólksins í St. Nicolaas, bara til að fá það staðfest að hún taki grænu kjólunum fram . Ari og Guðmundur mættu á æfingu í gær og var klappað fyrir þeim síðarnefnda en hann kvartaði undan kvenmannsleysi í Fóstbræðrum. Einnig mátuðu tveir ungir bassar kórinn og það á eftir að koma í ljós hvernig það fer. Í augnablikinu sýnist mér samt sem karlmannsleysið í "Óþæga..." sé leyst. (Og mér sem leið alveg ágætlega í tenórhlutverkinu ) Vonandi færðu lykilinn af kirkjunni sem fyrst og haldist þér vel á "nýjum" fararskjóta. Farðu vel með þig! Bestu kveðjur yfir til ykkar.
Anna Sigríður Hjaltadóttir (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 06:58
Til hamingju með debetkortið, ég er ekki orðin svo velkomin ennþá. Og meira vesenið með hjólið ykkar, alræmdir allskynsþjófar í Amsterdam - hef einu sinni átt "góða" kvöldstund þar, keyrði nokkrum sinnum á móti umferð og endaði svo á því að komast ekki heim því það var búið að setja wheelclam á dekkið! En jú ég komst heim að lokum:)
Við sjáumst sem allra fyrst, kysstu feðgin frá okkur í "hinu" Dam.
P.s. netfangið er líka msnið mitt
Ester Helga (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 11:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.