Litla stúlkan á bleika reiðhjólinu

geysist hér um Staringplein og Vondelpark eins og stormsveipur. Stúlka þessi nefnist Alvilda Eyvör og hefur sjaldan eða aldrei verið hamingjusamari heldur en núna, á bleika tvíhjólinu með blómunum og hjörtunum sem hennar frábæru foreldrar fjárfestu í handa henni í gær. Fyrir þá afa og ömmur sem eru um það bil að fá fyrir hjartað núna má geta þess að hjólið er vopnað aðstoðardekkjum og stúlkan fær einungis að hjóla hægt og varlega á öruggum stöðum, og er búin að læra að stoppa:-)

Undur og stórmerki gerðust hér á föstudaginn var. Hringt var í okkur frá Amsterdam til að segja okkur að dótið væri laust úr tollinum og þeir gætu keyrt það til okkar á mánudaginn, sem er á morgun...jeeeiiiii, hér var að sjálfsögðu stiginn fagnaðarstríðsdans sem hefur meira og minna staðið yfir alla helgina. Hins vegar velti ég því óneitanlega fyrir mér hvort að það verði eitthvað pláss fyrir allt góssið hér á Brederodestraat...Hollendingar eru nefninlega lítið fyrir geymslur og í okkar íbúð, eins og flestum öðrum er enga slíka að finna. En þá er bara að troða í alla skápa og undir rúm og þá hlýtur þetta að reddast. Mestum spenningi veldur koma dúnsængurinnar, tempur-koddanna og dýnanna, svo og reiðhjólanna. Verður frábært að geta loksins hjólað hér í þessu mesta hjólalandi Evrópu. Þá get ég líka loksins farið að taka þátt í hinum ýmsu hollensku siðum sem fela meðal annars í sér að reyna að hjóla yfir sem flesta gangandi vegfarendur, hvort sem þeir eru staddir á "gangbraut" eða annars staðar, því að þeir eru bara fyrir! Það hefur hvarflað að mér eftir að hafa þónokkrum sinnum sloppið naumlega lifandi úr gönguferðum um hverfið, að það sé einhver útrýmingarherferð í gangi hérna. Á eftir að afla mér betri upplýsinga um það hjá bæjaryfirvöldum.

Við þremenningarnir fórum í verslunarferð í gær, í kjötbúðina góðu og á markaðinn. Ég er alltaf að átta mig betur og betur á því hversu illa við erum að láta fara með okkur heima á Íslandi hvað matvælaverð varðar. Við versluðum 1 kg kjúklingabringur, 1 kg kjúklingalæri og 1 kg úrvals nautahakk fyrir innan við 1000 ísl. krónur, parmaskinku, serranoskinku, fullt af nýju grænmeti og ávöxtum á markaðinum fyrir um 1000 ísl....loksins er gaman að fara að versla í matinn.

Annars er veðrið búið að vera frábært, 16-20 stig og sól alla helgina og auðvitað finnst okkur þetta sérstaklega dásamlegt þegar við lesum um frostið heima á Fróni:-)
Elmar hefur þó lítið getað notið veðursins þar sem hann hefur verið í afar ströngum æfingabúðum hjá Nonna frænda alla helgina. Ætlunin var að hann lærði eitt stykki franska nútímaóperu utan að.....(vona að allir sem lesa bloggið mitt geri sér örugglega grein fyrir því að ég ýki stundum örlítið að norðlenskum sið)....Nonni hefði samt helst viljað hafa það þannig;-) en ég held að hann Elmar minn hafi nú samt staðið sig vel og sé langt kominn með að læra sitt hlutverk og mér finnst franskan hans vera mjög góð, punktur og basta!!!

Elmar og Alvilda kúra inni í rúmi, heyrist hún vera í landafræðitíma...Chili con carne kraumar á skrímslinu í eldhúsinu, ég reyni að setja nokkrar nýjar myndir inn eftir matinn svo fylgist endilega með.

Bestu kveðjur frá Dam


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl elskurnar, og til hamingju með nýja bleika hjólið þitt Alvilda mín. Amma er búin að skoða myndirnar og þú ert nú ekkert smá dugleg. Já það er nú ekki hægt annað en að öfunda ykkur af veðrinu, vorum um helgina í 4 stiga hita og  norðan strekkingi að smala kindum vestur í Dölum. Svo snjóaði á okkur þegar við vorum á leiðinni heim af réttarballinu brrrrrrrrr.

Kveðjur og knús til Elmars og Alvildu frá okkur

mamma (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 14:05

2 identicon

Sæl veriði öll 3:O)

takk fyrir innlitið á síðuna mína, og til hamingju með þetta nýja líf. En einu gleymir þú elsku Arngerður mín og það er segja hvað þú sjálf ert að gera:O) Er búin að lesa bloggið til að finna út úr því en kemst næst því að álykta að þú sért að fá mikla útrás í eldamennsku á græjunni sem fylgir íbúðinni......ert þú sem sagt ekkert í skóla eða komin með vinnu????

Mikið hvað daman litla með stóru augun hefur rifnað út og er orðin flott. Ég set þig inn á linkana mína og hlakka til að fylgjast með ykkur Elmari í vetur. Gangi ykkur sem allra best og ég bið hjartanlega að heilsa honum Nonna ef hann er enn í borginni.

Syngibjörg

Bjarney Ingibjörg (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 17:45

3 identicon

Gott að tollurinn er loksins að skila sínu. Flottar myndir og skemmtileg skirf hjá þér Adda mín.  Mikið vildi ég að það væri svona gaman að versla á Íslandi!  En varstu örugglega ekki með okkur í anda í afmæli Helgu og Ragnars sl. laugardagskvöld? ;) 

Anna Sigríður Hjaltadóttir (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 19:51

4 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Ég er greinlega orðin amma því ég fékk fyrir hjartað ups en jafnaði mig þegar ég las áfram....

Guðrún Vala Elísdóttir, 18.9.2007 kl. 23:34

5 identicon

Sæl öll!   Til lukku með nýja fallega hjólið þitt Alvilda mín....það lítur út fyrir að þú sért mjög dugleg að hjóla.  En er það sem mér sýnist að stúlkan á fallega bleika hjólinu sé ekki með hjálm?    Ömmuhjartað í mér tók verulegan kipp svo lá við áfalli sem ég er að reyna að jafna mig á núna.  Vonandi verður bætt úr þessu með hraði.

Ég býst við að þið séuð núna búin að fá kryddið og undirfötin, sængurnar, vetrarfötin og koddana svo allt ætti að vera í lukkunnar velstandi.

Faðmur til allra.  Kv. Þóra 

Alvilda Þóra Elísdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 21:10

6 identicon

Halló Holland.

Mikið er nú gaman að allt gengur svona vel og Alvilda svona ánægð. Hún er ótrúlega flott á hjólinu sínu og á myndbandinu mynnir hún mig bara á Ester Helgu á sínum yngri árum, En annars erum við að koma til Hollands 28. sept,(ég, Ester Helga ,Atli Dagur og Árni). Spurning um hitting?Kveðjur úr Mosó

Líney Ben (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 22:01

7 Smámynd: Arngerður María Árnadóttir

Hæ hæ Líney, Já, við verðum nú auðvitað að hittast. Hvenær farið þið Árni heim aftur???

Arngerður María Árnadóttir, 20.9.2007 kl. 07:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband