...já eða pólsk eða rúmönsk...

Hollendingar eru mikið að velta því fyrir sér hvaðan ég sé, flestir skjóta á Pólland, í öðru sæti kemur síðan Rúmenía en engir giskar á Frakklandið....hhhmmmmm. Hins vegar verða allir afar áhugasamir þegar ég segist vera frá Íslandi og vilja ýmist ræða um kvenforsetann okkar, Björk eða íslenska landsliðið í handbolta. Serbinn sem hleypti mér inn í kirkjuna í Zaandam í morgun og gaf mér þetta fína te, var t.d mikill handboltaáhugamaður og vissi ýmislegt um "strákana okkar". Ég sem sagt komst loksins í orgel núna í morgun en ég er búin að fá aðgang að kirkju í Zaandam sem er auðvitað frábært. Ég vil taka það skýrt fram að ég er afar þakklát fyrir þetta en hins vegar eru nokkrir gallar á gjöf Njarðar. Það tekur mig klukkutíma að fara hvora leið, kirkjan er óupphituð og orgelið er bilað! Ein nótan í pedalnum hljómar stöðugt en ég einbeiti mér eins og ég get við að reyna að útiloka hana og ímynda mér að þetta hljómi frábærlega sem ég er að spila þrátt fyrir að þetta rammfalska des sé alltaf með:-) Serbneski kirkjuvörðurinn var sérlega almennilegur, ekki hvað síst með tilliti til þess að hann kann sama og enga ensku en hann var afar viljugur að reyna og okkur tókst að spjalla á einhverri blöndu af ensku, hollensku og serbensku og svo bauð hann mér aðgang að tölvunni sinni og alles. Því miður kemst ég ekki til að æfa mig á morgun þar sem við þurfum að fara í enn eitt pappírsferðalagið, vonandi það síðasta, til að fá dvalarleyfi. En ég stefni á að fara 4 sinnum í næstu viku og komast nálægt því að vera tilbúin að spila fyrir van Oortmerssen. (Þessi fíni organisti sem ætlar kannski að kenna mér.)
Um síðustu helgi frétti ég af lausri organistastöðu hér niður í bæ og í bjartsýniskasti hefi ég ákveðið að sækja um. Þetta er stutt frá okkur, fínt orgel og frekar lítil vinna, bara spila 2 sunnudaga í mánuði og vera með eina kóræfingu fyrir hverja messu. Væri alveg frábært fyrir mig en hins vegar hef ég ekki hugmynd um hvernig framboðið er á organistum hér og ég tala ekki einu sinni hollensku svo ég yrði nú örugglega seint tekin fram yfir Hollending, en það sakar heldur ekki að reyna. Kannski líka ágætt að komast að því fyrr en seinna hvort maður hefur einhverja möguleika á að fá vinnu hérna sem organisti eða ekki:-)
Haustfrí byrjar hér í Amsterdam á föstudaginn eftir viku og það þýðir að Elmar og Alvilda eru í fríi í heila viku. Í tilefni af því höfum við pantað okkur saumavél sem við ætlum að reyna að komast á til Trier að heimsækja Þorgerði og fjölskyldu. Saumavél þessi heitir Chevrolet Matiz og er með 0,8 vél og Þorgerður er vinkona mín úr M.A, svona fyrir þá sem þurfa frekari útskýringar á málinu. Við ætlum að fara á laugardegi, 13. okt, og koma aftur á fimmtudegi og hlökkum mikið til:-)
Er farin út að hlaupa, kossar og knús Adda

French, sophisticated and smart...

Þetta er niðurstaðan sem ég fékk út úr könnuninni "Who is your inner europian" sjá http://www.blogthings.com/whosyourinnereuropeanquiz/, svona ef einhver hefur ekkert að gera eins og ég:-) En svo virðist sem sagt vera að ég sé í röngu landi, hhmmmm, þar sem svona kannanir ljúga náttúrulega aldrei hef ég svona nettar áhyggjur af þessu. Reyndar var Elmar að stinga upp á því um helgina að næsti viðkomustaður okkar í millilandaflutningum yrði einmitt Frakkland svo kannski ég ætti bara að fara að drífa mig á frönskunámskeið!
En það hefur verið nóg að gera síðustu daga á Grand hotel Organia Amsterdam. Fyrstu gestirnir okkar komu á föstudaginn var en það voru þau Soffía og Svanur, sem kom vel að merkja í flísgallanum og gönguskónum þar sem Soffía var búin að ljúga í greyið að hann væri að fara í óvissuferð, sem var auðvitað satt en hann gerði frekar ráð fyrir því að hann væri að fara að klífa fjöll og vaða ár heldur en að fara í menningar/skemmtiferð til Amsterdam. Þetta varð hin besta helgi, fórum á mjög sérstakan og skemmtilegan stað á föstudagskvöldinu sem heitir Supperclub. Fengum þar 5 rétta máltíð upp í rúm...alveg satt...nudd, skemmtiatriði og síðan fengu S og S kynningarferð um hin ýmsu hverfi miðborgarinnar. Meðan á þessu stóð var Alvilda Eyvör í heimsókn hjá Nonna frænda sem gaf henni græna súpu og hvíta köku með rauðri sósu, ekki amalegt það enda Alvilda hæstánægð með frænda sinn:-) S og S voru síðan vakin morguninn eftir með nýbökuðum ammmmerískum pönnukökum, nýbökuðu brauði, ostum, nýsneiddri serranoskinku frá slátraranum og fleira góðgæti. Voru menn sammála um að gæði morgunverðar gæfi hótelinu a.m.k eina viðbótarstjörnu, og síðan má ekki gleyma því að að sjálfsögðu gistu gestirnir í hjónasvítu hótelsins sem búin er glæsilegum innréttingum, rúmi með tempur heilsudýnum og sérinngangi. Síðan tók menningin við, útiskák, Van Gogh safnið, pönnukökuhús og bjór, verslanir og síðan fengu gestirnir að kynnast alvöru hollenskri hjólamenningu um kvöldið þegar 5 manns hjóluðu á 3 hjólum á ítalskan veitingastað, í sparifötunum í grenjandi rigningu sem er afar hressandi og lystaukandi!
Gestirnir yfirgáfu okkur síðan snemma á sunnudag, Alvildu til sárra vonbrigða en hún var búin að margspurja þau hvort þau vildu ekki eiga heima hjá okkur...held hún sé að verða hálfleið á okkur foreldrum sínum.
Á sunnudag héldum við fjölskyldan síðan til Rotterdam, en Ester Helga frænka Elmars var að flytja þangað með nýfætt barn og mann. Mamma hennar og bróðir voru stödd hjá þeim og fórum við að hitta fólkið og áttum góðan dag þar.

Over and out, Adda


Hjóla, hlaupa, hlaupa, hjóla...

um þetta snýst líf okkar svona meira og minna þessa dagana. Undirrituð eignaðist alvöru "Hollendinga" hjól á laugardaginn var, það eru nokkuð merkileg farartæki amk í augum Íslendinga en afar þægileg þegar þau venjast og maður fer svona nokkurn vegin að hafa stjórn á ferlíkinu:-) Snara inn mynd af gripnum hið fyrsta.
Um helgina var æðislegt veður hérna, 22 stiga hiti og sól og í gær fórum við í langan hjólatúr um borgina og enduðum svo í piknikk í Vondelpark. Í þessum túr áttuðum við okkur nú á því hvað það er reyndar þægilegt að víkja hvorki fyrir einu né neinu og bara hjóla, sama hvort einhver eða eitthvað er í veginum eður ei. Hins vegar verða þessir hollensku siðir afar pirrandi ef maður slysast til að vera einhvers staðar fótgangandi, og því höfum við enn ekki tekið afstöðu til hvort við ætlum bara að vera hollensk eða reyna að innleiða nýja og betri hjólreiðasiði í þetta land.
Síðastliðinn fimmtudag fékk ég þá snilldarhugmynd að fara út að hlaupa...reyndar er það engin nýlunda að ég fái þá hugmynd en sjaldnast kemst hún á framkvæmdastigið. En Vondelpark togaði í mig og 15 stig og skýjað er náttúrulega úrvals hlaupaveður svo að ég lét mig hafa það. Þetta varð náttúrulega hræðilegt eins og alltaf þegar maður hefur ekki hlaupið í einhvern tíma, en ég hafði þetta af og við hjónaleysin fórum síðan að jogga í gær og aftur í dag!!! Held við séum endanlega að ganga af göflunum, plús það að ég fjárfesti í þessum fínu eldrauðu lóðum um helgina svo ég geti nú farið að reyna að styrkja bakið fyrir orgelæfingarnar sem vonandi eru framundan. Langar til að skjóta hér að einni spurninu til lesenda: Finnst ykkur eitthvað athugavert við það að taka nokkrar æfingar með lóðum út á svölum í 22 stiga hita og sól???? Þetta finnst mér afar eðlilegt en ég held að Elmar hafi hins vegar aldrei skammast sín jafn mikið fyrir mig og fannst ég hrikalega hallærisleg...sko ef ég væri aflitað, sóbekkjaoflegið, steravaxtarræktartröll og hefði verið ber að ofan þá kannski hefði þetta verið too much..eða hvað segið þið???
En í hlaupatúrnum í gær prófuðum við að hafa Alvildu með okkur á bleika hjólinu, það gekk nokkuð vel framan af en þó varð fyrsta hjólaslysið í þessari ferð en okkar er nú hraust og var ekki lengi að ná sér og skella sér á bak aftur. Skólinn gengur vel hjá henni, finnst erfitt þegar við kveðjum hana á morgnana en Wendy ofuryndislega segir að hún jafni sig alltaf um leið á því. Hún er búin að læra nokkur orð og að telja upp að 10 og er bara frekar áhugasöm um hollenskuna.
Hjól er nú ekki það eina sem ég hefi eignast síðan ég bloggaði síðast því á föstudaginn fórum við Nonni í píanóinnkaupaleiðangur og ég keypti mér Yamaha 220, ægilega fínt digital píanó. Þetta er svo sem langt frá því að vera eins og alvöru píanó, en það er samt allt annað að hafa eitthvað hljóðfæri hérna heima og ég get alveg æft orgelverkin eitthvað á þetta, svona fyrir utan pedalinn auðvitað. Annars er möguleiki að ég komist í orgel í Zandaam sem er bær svona 15 mín fyrir utan Amsterdam, er að reyna að ná í mann út af málinu til að meiri upplýsingar.

Bestu kveðjur til allra frá okkur í Dam:-)


Raindrops keeps falling on my head...

ójá, það rignir hér í Amsterdam í dag. Held að ég sé að átta mig á veðurmynstrinu hérna, sól og blíða annan daginn og rigning og blíða hinn.
Þegar ég var vakin í morgun, á sama hátt alltaf en þá hendir Alvilda sér ofan á mig í rúminu og reynir svo að draga mig á fætur...aldrei pabba sinn sko;-) mundi ég skyndilega eftir því að ég hef ekki bloggað í 4 daga, þetta er náttúrulega engin frammistaða svo hér er ég nú sest niður.
Á mánudaginn kom dótið langþráða loksins, hjólin, dýnan, undirfötin og allt saman alveg heilt og óskemmt:-) Samskipum hefur sem sagt farið fram síðan ég flutti síðast með þeim fyrir 9 árum síðan en þá tókst þeim á ótrúlegan hátt að eyðileggja hjólið mitt. En nú hefi ég fyrirgefið þeim það að fullu. Það tók nú sinn tíma að koma þessu öllu fyrir en Elmar lagði lokahönd á verkið í gærkvöld og er nú allt komið á sinn stað.
Í fyrrakvöld bauð Nonni okkur í mat en hann hafði eldað handa okkur þessa dýrindis 5 rétta kínversku máltíð og bruggað bjór með;-) Alltaf gott að komast í matarboð og nú er einungis 1 dagur í það næsta því Guðrún Anna, vinkona Nonna er búin að bjóða okkur öllum til sín annað kvöld. Ekki slæmt að eiga svona góða að hérna:-)

Ég er búin að vera að reyna að vinna aðeins í mínum málum upp á síðkastið. Í síðustu viku komst ég í samband við organista í stórri og fínni kirkju hérna, Michael Hedley, hann var mjög almennilegur og til í að aðstoða mig en því miður var hann á leið í frí og kemur ekki aftur fyrr en 6. október en ég á að hafa samband þá. Ég veit svo sem ekkert hvað kemur út úr því, hvort hann hefur einhverja æfingaaðstöðu handa mér, eða hefur áhuga á að taka mig í tíma, eða hvað....kemur í ljós bara.
Í þessari viku fékk ég síðan þá hugmynd að hafa samband við organista organistanna hérna í Hollandi, Jacques van Oortmerssen, mjög frægur maður sem allir organistar vita hver er. Hann brást skjótt við og bauð mér að koma í hóptíma til sín í dómkirkjunni í Harleem sem er borg í um 15 mín. lestarferð héðan. Við Alvilda lögðum því land undir fót í gær til að hitta manninn. Ég fylgdist með tímanum hjá honum og svo tókum við smá spjall. Hann var mjög almennilegur og sagði að hann vildi gjarnan að ég spilaði fyrir sig sem fyrst, ef honum litist á mig vildi hann senda mig í einkatíma til einhvers af sínum fyrrverandi nemendum en hann myndi líka fylgjst með mér og kannski taka mig í tíma sjálfur einu sinni í mánuði. Hér verð ég nú eiginlega að viðurkenna að ég hafði samband við manninn undir því yfirskini að ég hefði áhuga á að taka inntökupróf í orgeldeildina í Konservatoríinu en hann er sem sagt deildarstjóri þar. En á þessu stigi málsins veit ég ekki hvort mig langar í þessa deild, en það sakar kannski ekki að skoða málið, sérstaklega ef ég fengi þennan mann fyrir kennara.
En vandamálið núna er það að ég hef ekkert orgel til að æfa mig á og veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í því. Ég stefni hins vegar á að kaupa mér rafmagnspíanó á morgun en ég þarf auðvitað líka að hafa aðgang að orgeli, ég hef ekki snert á útskriftarverkunum mínum í 3 mánuði svo ég þarf nú aðeins að dusta af þeim rykið áður en ég fer að spila þau fyrir mr. van Oortmerssen. Hann sagði mér svo reyndar frá því að það væri laust pláss í deildinni núna og það væri kannski möguleiki að troða mér inn, en það gengur náttúrulega ekki upp þar sem Alvilda er svo lítið í skólanum og við höfum auðvitað enga pössun. Enda er kannski bara ágætt að nota veturinn til að undirbúa inntökupróf sem ég myndi þá taka í júní, það nefninlega fer eftir frammistöðu á inntökuprófi hvort þeir setja mann á fyrsta, annað, eða þriðja ár í B.A náminu eða hvort maður kemst beint inn í masterinn. T.d eru 2 nemendur hjá honum á 2. ári í B.A sem voru búnir með B.A gráðu annars staðar en þóttu bara ekki nógu góðir til að komast í masterinn. Þannig að standardinn er mjög hár.

Þetta er að verða alltof langt og leiðinlegt blogg, lofa að vera skemmtilegri næst en nú vitið þið allavegana hvað er í gangi hjá mér:-)

Kossar og knús, Adda


Litla stúlkan á bleika reiðhjólinu

geysist hér um Staringplein og Vondelpark eins og stormsveipur. Stúlka þessi nefnist Alvilda Eyvör og hefur sjaldan eða aldrei verið hamingjusamari heldur en núna, á bleika tvíhjólinu með blómunum og hjörtunum sem hennar frábæru foreldrar fjárfestu í handa henni í gær. Fyrir þá afa og ömmur sem eru um það bil að fá fyrir hjartað núna má geta þess að hjólið er vopnað aðstoðardekkjum og stúlkan fær einungis að hjóla hægt og varlega á öruggum stöðum, og er búin að læra að stoppa:-)

Undur og stórmerki gerðust hér á föstudaginn var. Hringt var í okkur frá Amsterdam til að segja okkur að dótið væri laust úr tollinum og þeir gætu keyrt það til okkar á mánudaginn, sem er á morgun...jeeeiiiii, hér var að sjálfsögðu stiginn fagnaðarstríðsdans sem hefur meira og minna staðið yfir alla helgina. Hins vegar velti ég því óneitanlega fyrir mér hvort að það verði eitthvað pláss fyrir allt góssið hér á Brederodestraat...Hollendingar eru nefninlega lítið fyrir geymslur og í okkar íbúð, eins og flestum öðrum er enga slíka að finna. En þá er bara að troða í alla skápa og undir rúm og þá hlýtur þetta að reddast. Mestum spenningi veldur koma dúnsængurinnar, tempur-koddanna og dýnanna, svo og reiðhjólanna. Verður frábært að geta loksins hjólað hér í þessu mesta hjólalandi Evrópu. Þá get ég líka loksins farið að taka þátt í hinum ýmsu hollensku siðum sem fela meðal annars í sér að reyna að hjóla yfir sem flesta gangandi vegfarendur, hvort sem þeir eru staddir á "gangbraut" eða annars staðar, því að þeir eru bara fyrir! Það hefur hvarflað að mér eftir að hafa þónokkrum sinnum sloppið naumlega lifandi úr gönguferðum um hverfið, að það sé einhver útrýmingarherferð í gangi hérna. Á eftir að afla mér betri upplýsinga um það hjá bæjaryfirvöldum.

Við þremenningarnir fórum í verslunarferð í gær, í kjötbúðina góðu og á markaðinn. Ég er alltaf að átta mig betur og betur á því hversu illa við erum að láta fara með okkur heima á Íslandi hvað matvælaverð varðar. Við versluðum 1 kg kjúklingabringur, 1 kg kjúklingalæri og 1 kg úrvals nautahakk fyrir innan við 1000 ísl. krónur, parmaskinku, serranoskinku, fullt af nýju grænmeti og ávöxtum á markaðinum fyrir um 1000 ísl....loksins er gaman að fara að versla í matinn.

Annars er veðrið búið að vera frábært, 16-20 stig og sól alla helgina og auðvitað finnst okkur þetta sérstaklega dásamlegt þegar við lesum um frostið heima á Fróni:-)
Elmar hefur þó lítið getað notið veðursins þar sem hann hefur verið í afar ströngum æfingabúðum hjá Nonna frænda alla helgina. Ætlunin var að hann lærði eitt stykki franska nútímaóperu utan að.....(vona að allir sem lesa bloggið mitt geri sér örugglega grein fyrir því að ég ýki stundum örlítið að norðlenskum sið)....Nonni hefði samt helst viljað hafa það þannig;-) en ég held að hann Elmar minn hafi nú samt staðið sig vel og sé langt kominn með að læra sitt hlutverk og mér finnst franskan hans vera mjög góð, punktur og basta!!!

Elmar og Alvilda kúra inni í rúmi, heyrist hún vera í landafræðitíma...Chili con carne kraumar á skrímslinu í eldhúsinu, ég reyni að setja nokkrar nýjar myndir inn eftir matinn svo fylgist endilega með.

Bestu kveðjur frá Dam


Í fréttum er þetta helst:

Tollurinn í Rotterdam er í afleitu skapi þessa dagana og kemur ekki til hugar að afgreiða búslóð Arngerðar og fjölskyldu. Þó er aldrei að vita nema á einhverjum sólríkum haust/vetrar/vordegi, einhvern tíman í framtíðinni, muni þeim þóknast að skoða þessi mál. En eitt er víst að ef Arngerður og fjölskylda munu með einhverjum hætti reyna að ýta á og flýta fyrir afhendingu, þá mun það fara þveröfugt ofan í tollverði sem munu þá í fyrsta lagi huga að þessu máli á nýju ári. Svo það eina sem fjölskyldan á Brederodestraat getur gert nú er að "BÍÐA". Húsmóðirin er þó um það bil að missa þolinmæðina og raukí fússi í bæinn í dag og verslaði nokkrar flíkur á mæðgurnar, bæði til þess að þurfa ekki að þvo á hverjum degi svo og að frjósa ekki í hel á svölum síðsumarskvöldum.
Einmuna blíða var í Amsterdam í dag og myndir úr þessari verslunar/menningarferð mæðgnanna má sjá hér neðar á síðunni.

Þá er fréttalestri lokið, góðar stundir!


Efnilegur dansari


Stóra skólastelpan mín

Í gær var fyrsti skóladagurinn runninn upp og við Alvilda héldum út kl. 8:30. Wendy ofuryndislega tók á móti okkur og síðan hófst bara prógrammið. Þau byrja á að sitja saman í hring og syngja og spjalla, síðan smá frjáls tími sem mín fílar mjög vel þar sem það er ótrúlega mikið af flottu og skemmtilegu dóti hjá þeim. Síðan fengu allir að fara í búninga, þ.e grímubúninga sem fullt er til af og svo var sett upp leikrit, tónlist sett í botn og allir dönsuðu saman. Þetta fannst Alvildu æðislegt og held ég að óhætt sé að segja að hún sýni mikla hæfileika á því sviðinu:-) Síðan settust allir við borð og fóru að leira og þá ákvað móðirin að gerast frökk og fara heim. Alvildu fannst það ekkert mál og hún var ein þarna í 1 og 1/2 tíma og gekk það víst bara vel. Hún fer svo aftur á morgun og föstudag, alltaf lokað á miðvikudögum, og er bara spennt yfir því heyrist mér. Hún fer líka með nesti og finnst það rosa sport og fór strax að tala um í gærkvöld hvenær hún færi aftur í skólann með nesti:-)
Annars er ekkert nýtt af tollamálunum en fékk hinsvegar að vita í gær að við fáum tíma til að sækja um kennitölu......25. september! Ætli það sé ekki best að reyna að fara að aðlagast þessum hollenska hraða ef maður á að þrífast hér;-)
Nonni frændi (Jón Þorsteinsson söngkennari) er að koma til Amsterdam á eftir. Við Alvilda ætlum að fara að taka á móti honum heima hjá honum og reyna svo að gefa honum eitthvað gott að borða hér á Brederodetraat í kvöld.
Ég gleymdi myndavélinni heima þegar við fórum í skólann í gær en ætla að reyna að taka hana með á morgun og fá að taka nokkrar myndir til að setja hingað inn.


Af fleiri ferðalögum og frönskuflækjum

Hér í Amsterdam höfum við rétt lokið við að borða grískt Moussaka með salati, brauði og tilheyrandi. Ég er að læra á hollenska matarinnkaupasystemið og líst afar vel á. Uppgötvaði glæsilega kjötbúð í dag með öllum tegundum, meira að segja hrossum, í öllum mögulegum formum á spottprís, meira að segja miklu ódýrara heldur en í stórmörkuðunum samkvæmt nýjustu matvælaverðskönnun Arngerðar. Útimarkaðurinn í hverfinu er líka algjör snilld, við Alvilda versluðum grænmeti og ávexti í 2 poka fyrir svona 500 kall.
En svo eru það ferðalögin okkar, lagt var í reisu í IKEA á laugardaginn til að kaupa rúm handa Alvildu og varð þetta líka bara þetta fína 5 tíma ferðalag í heildina, fórum með sporvagni og svo lest. Við versluðum helling í IKEA, fyrir utan rúmið þá vantaði ýmislegt í eldhúsið og svona og svo sjá þeir bara um að senda manni þetta heim. Við settum allt í heimsendingu og fengum þetta upp að dyrum klukkutíma eftir að við komum heim, afar þægilegt.
Gærdagurinn var frekar rólegur hjá okkur, fórum heim til Nonna til að þrífa aðeins eftir okkur og svo í göngutúr í Vondelpark. Þar eru leikvellir út um allt og venjulega er bar við hliðina þannig að fólk situr bara og sötrar bjór á meðan krakkarnir leika í sandkassanum, athyglisverð menning:-) Ég held að eitthvað yrði nú sagt ef maður færi í fjölskyldugarðinn heima með börnin í annarri og bjór í hinni!
Í dag var síðan komið að enn einni fýluferðinni, sú tók nú reyndar bara rúman klukkutíma en ekki 5 eins og sú á föstudaginn var. Hlutirnir ganga afskaplega hægt fyrir sig og ekkert nýtt er að frétta af dótinu okkar í tollinum, er samt að fara að faxa einhverja pappíra þangað á morgun og vona að eitthvað gerist þá. Við gömlu hjónin erum að verða ansi bakveik af þessari hroðalegu gormadýnu í rúminu hérna og dreymir tempur-dýnurnar okkar allar nætur.
Hefi líka ákveðið að ef við fáum ekki dótið í þessari viku þá verður neyðar-ferðin í H&M farin um næstu helgi!
Ég hef heldur ekkert fengið enn af dótinu sem átti að koma hingað í íbúðina, en það hlýtur að koma að því.
Alvilda byrjar í skólanum í fyrramálið og er mjög spennt, fórum að kaupa nestisbox í dag og allt að verða tilbúið.
Elmar var á fyrstu æfingu fyrir frönsku óperuna sem á að setja upp í desember, núna í dag, gekk þokkalega held ég en það virðast allir hafa lært frönsku nema hann plús að hafa legið yfir þessu í allt sumar. Þetta er sko ekki vinnandi fólk eins og við Íslendingarnir! En þetta á örugglega eftir að ganga vel hjá honum, hef fulla trú á því.

Nóg í bili, bestu kveðjur frá litlu fjölskyldunni í Dam


Pistill dagsins

Hún Hólmfríður Anna stórvinkona mína spurði mig í vikunni hvort ég væri ekki á Facebook??? Hvað er nú það, svaraði þá tölvuaulinn Arngerður. Mér varð það á að minnast á þetta Facebook við hann Elmar minn og nú er staðan orðin þannig að við erum bæði komin á fullt í þetta og sitjum hérna saman með rauðvín og kertaljós og leikum okkur á Facebookinu. Áhugasömum er bent á www.facebook.com.
Ég hefi verið beðin um að segja meira frá skólanum hjá Elmari þar sem hann er engan vegin að standa sig í blogginu og verð að sjálfsögðu við þeirri bón. Hann er búinn að vera á masterclass hjá skoskum kennara alla vikuna og var bara mjög ánægður með það en svo byrjar bara kennsla eftir stundaskrá á mánudaginn. Standardinn á fólkinu sem er með honum er mjög hár og sér hann fram á mjög spennandi og skemmtilegan vetur. Get örugglega sagt frá meiru í næstu viku þegar kennslan verður byrjuð hjá honum.
En viðburðir dagsins voru eftirfarandi:
Ég og Alvilda fórum og hittum hana Wendy ofuryndislegu í morgun. Okkur leist bara vel á skólann, það eru 14 börn í þessari deild og 2-3 konur að sjá um þau. Það er alltaf eitthvað þema í gangi og núna næstu vikurnar eru þau að einbeita sér að leiklist, þ.e tjáningu, söng og dansi. En við eigum að mæta á þriðjudaginn kl. 8,30, læt að sjálfsögðu vita hvernig það gengur. Hér verð ég að bæta því við að Hollendingar eru snillingar í pappírsvinnuflóði, Wendy ofuryndislega sendi okkur heim með þvílíkan bunka sem ég eyddi klukkutíma í að fylla út og er enn ekki búin.

Þegar Elmar kom heim úr skólanum eftir hádegið ákváðum við að drífa okkur í tollinn í Schiphol eins og tollurinn í Rotterdam var búinn að segja að við þyrftum að gera. Til að gera langa sögu stutta þá tók það okkur rúma 2 tíma að koma okkur á svæðið og finna rétta húsið sem enginn virtist vita hvar væri, töluðum við megafúlan tollvörð sem eiginlega bara gaf skít í okkur og sagði að hann gæti ekkert gert fyrir okkur, og nennti því greinilega ekki heldur. Við lufsuðumst þaðan út, mjög fúl, komum okkur í lest sem átti að fara niður í miðbæ að því er við héldum, en reyndist þess í stað fara lengst út í sveit þannig að ferðin til baka tók álíka tíma.
Það nýjasta í þessu máli er að við eigum að faxa einhverja pappíra til Rotterdam.......held að við megum teljast heppin ef við verðum búin að fá dótið okkar fyrir jól! Þetta fer nú að verða spurning um neyðar-ferð í H & M.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband