Færsluflokkur: Bloggar
Veit að ég er alveg að missa mig hérna en ég bara varð að segja frá því að hún Alvilda Eyvör byrjar í forskólanum á þriðjudaginn!!!! Þetta er bara ótrúlegt, ég hélt að allt gengi í skjaldbökugírnum í Hollandinu. Hún Wendy, ofuryndislega konan í forskólanum, sagði reyndar að við værum rosalega heppin, á sama tíma í fyrra hefði verið biðlisti. En við förum sem sagt að hitta hana í fyrramálið og svo er bara mæting á þriðjudag kl. 8:30 og þarna verður hún alla virka dag nema miðvikudaga frá 8,30 til 12. Mjög spennandi sem sagt.
Fleira hefur nú reyndar gerst í dag...má kannski deila um hversu merkilegt það sé en ég er búin að troða mér upp á íslenska konu sem þekkir einhverja organista og er í nokkrum kórum og tók hún það verkefni að sér að athuga hvort einhver sé til í taka mig í tíma og hvort einhver vilji leyfa mér að syngja í kórnum sínum.
Síðan tókst mér að fá mann hingað fá leigumiðluninni sem ætlar að reyna að redda okkur nýjum termostat, nýjum hljómflutningstækjum og nýrri þvottavél/þurrkara...jeeiiiiiiiii....en tæki þessi virka svona misvel. Áður var ég líka búin að nöldra DVD-spilara út úr þeim svo að mér finnst ég bara standa mig nokkuð vel:-)
Góðar stundir, Adda
Bloggar | 6.9.2007 | 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Góðan daginn góðir hálsar! Held ég byrji færsluna á að tilkynna sigurvegara stærðfræðikeppni síðustu færslu.....Sigrún Magna;-) Til hamingju Sigrún mín, verðlaunin bíða þín hér á Brederodestraat! Það verður þó að segjast að það olli mér töluverðum vonbrigðum hversu fáir lögðu í dæmið en óneitanlega var það fremur flókið svo ætli ykkur fyrirgefist ekki í þetta sinn.
Hér hefur verið vitlaust að gera síðustu daga, einna helst í að finna út úr því hvernig maður fer að því að deyja ekki úr kulda í 200 ára gömlu húsi í Amsterdam, þó svo að enn sé sumar! Elmar hefur unnið að því dag og nótt að reyna að skilja termostatinn hér og einhverja tölvu sem virðist eiga að stjórna honum, og held ég að það sé nú allt að koma hjá honum. Amk var okkur ekki alveg jafn kalt síðustu nætur eins og þær á undan. Hins vegar reynist eldunarmonsterið afar vel, eldaði hafragraut í morgun á mettíma:-)
Í fyrradag skráðum við okkur inn í landið, reyndar kostaði það blóð, svita og tár þar sem maður er ekki alveg farinn að átta sig á vegalengdum hér og ekki alveg með sporvagnakerfið á hreinu. En okkur tókst að komast á staðinn seint og um síðir, blaut af svita og lafmóð. Þá er næst að reyna að fá dótið okkar úr tollinum og stefnt er á leiðangur því tengdum síðar í dag. Það eru óneitanlega viðbrigði fyrir ofalda og ofdekraða íslendinga að koma hingað og þurfa skyndilega að finna út úr almenningssamgöngum, líka þegar allt sem við þurfum að gera er einhversstaðar í rassgati og ekkert tvennt á sama stað.
Okkur var boðið í mat í fyrrakvöld, til Ágústu, Floris og Katrínar dóttur hennar en Ágústa er systir stráks sem var með mér í Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Það var frábært að fá svona matarboð og gaman að kynnast þeim, aldrei að vita nema við reynum að endurgjalda matarboðið áður en langt um líður.
Síðan vorum við að fá frábærar fréttir núna í morgun. Skólinn sem ég var að tala um að koma Alvildu inn í og er hér við hliðina á okkur, ég var að tala við forskólann þar "pre-school" sem er fyrir börn frá 2 og 1/2 til 4 ára og það er laust pláss þar! Það verður hringt í mig út af þessu seinna í dag en mér var sagt að hún kæmist líklega inn núna á næstu tveimur vikum:-) Alvilda er mjög spennt að komast í skóla hérna, við fórum í gær að sækja um "skóla" , þ.e frá 4 ára aldri (þetta er mjög snúið allt saman og eins og ég sagði þarf maður alltaf að fara á marga staði) og þá hafði hún misskilið mig og hélt að hún hefði átt að fara í skólann þá og ég þurfti að fara með hana hágrátandi út af skrifstofunni. Annars er hún búin að vera rosalega góð síðan við komum og ótrúlega þolinmóð að þvælast með okkur hérna út um allt.
Er farin út á svalir að blása á þvottinn okkar svo hann þorni einhvern tíman í rakanum hérna.
Adda
Bloggar | 6.9.2007 | 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja, þá erum við loksins komin í íbúðina okkar og erum bara yfir okkur hamingjusöm með hana. Vorum náttúrulega bara búin að sjá 3 litlar myndir á netinu og vissum ekki alveg á hverju við áttum að eiga von, en ég held að segja megi að þetta hafi farið fram úr okkar björtustu vonum. Topparnir eru risasvalir meðfram allri íbúðinni svo og þessi svakalega eldavél sem skoða má á nýju myndunum í september 2007 albúminu. Svona monster hélt ég að væri aðeins að finna í mötuneytum og stærri veitingastöðum, mér sýnist að ég geti bakað 9 svamptertubotna í einu í ofninum sem er á þremur hæðum! Læt vita þegar ég verð búin að sannreyna það.
Hvernig er það annars, ætlar enginn að fara að bóka pláss hjá okkur um jólin??? Kitchen Aid vélin kemur vonandi einhvern tíman úr tollinum og þeir sem eitthvað kunna í stærðfræði ættu nú að geta reiknað eftirfarandi dæmi: Risabakarofn + Kitchen aid + jól + ægilega skemmtilegt fólk - (snjór + ófærð) - óteljandi fjölskylduboð með sama x marga fólkinu og síðustu y mörg ár x 6 gashellur/ afar ódýrt rauðvín + skipulagðar ferðir í 3x(Coffeeshop + búðir) = ???
Svör óskast send í athugasemdir, vegleg verðlaun í boði!
Elmar byrjaði í skólanum í dag og líst mjög vel á. Önnin virðist ætla að byrja á viðráðanlegum hraða en eftir haustfríið um miðjan október verður brjálað að gera við að æfa franska óperu sem þau ætla að sýna í desember, mjög spennandi allt saman.
Á morgun ætlum við að gera tilraun nr. 2 til að skrá okkur inn í landið, vonum að það muni ganga svo við getum farið að fá okkur síma og bankareikning og kannski færst örlítið nær því að fá þetta blessaða dót okkar frá vinum okkar í tollinum.
Bestu kveðjur frá Breiðarauðastræti
Bloggar | 3.9.2007 | 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nú er Elmar farinn að spurja mig hvort ekki sé kominn tími á nýja færslu svo nú er ég sest niður við tölvuna á ný. Fyrirsögn pistilsins segir nú reyndar eiginlega allt sem segja þarf um helgina sem brátt er nú á enda. Heimilisfaðirinn lagðist í rúmið í gær með hósta, hita, hor og tilheyrandi og er svona að byrja að skríða saman aftur núna, sem betur fer þar sem skólinn byrjar á morgun og við ætlum að flytja í íbúðina "okkar". Alvilda er búin að vera með óstöðvandi hornös en samt eldhress svo að við mæðgurnar erum búnar að vera að leika okkur saman um helgina. Fórum í Vondalpark í gær, og svo í bæinn í dag að kaupa skóflu og fötu svo við getum mokað í risasandkassanum í Vondelpark, sáum brúðuleikhús á Dam Square sem er torgið í hjarta borgarinnar, kíktum inn í H & M ( er samt enn ekki búin að kaupa neitt!), fengum okkur ein borgara á Makka Dó og fleira skemmtilegt.
Nú erum við hins vegar komnar heim og freistum þess að koma manninum til heilsu með engiferi, sítrónu, hunangi og þess háttar kuklstarfsemi.
Undirrituð hefur hins vegar eignast marga vini um helgina, sem eru nú reyndar hrifnari af henni en hún af þeim. Þeir hafa orðið þess valdandi að hún líkist fílamanninum meir með hverri nóttinni sem líður og kláðinn er um það bil óbærilegur en er hún staðráðin í að standa þessar árásir af sér og ætlar að baða sig upp úr Moschito ilmvatni fyrir komandi nótt.
Kveðjur frá Dam, Adda
Bloggar | 2.9.2007 | 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég held ég stefni í að verða einn af þessum óþolandi bloggurum sem skrifa alla daga um ekki neitt. Er búin að fylgjast spennt með athugasemdunum við fyrstu færslunni og monta mig við Elmar eftir því sem að IP-tölunum mínum hefur fjölgað....er eiginlega búin að sitja á mér í allan dag að skrifa ekki en nú held ég þetta ekki lengur út kl. 21:48!
Annars hefur lítið markvert gerst í dag, fórum fýluferð í útlendingaeftirlitið og þurfum því að fara aftur síðar, nota bene eftir að vera búin að hringja á mánudag og panta viðtalstíma, spurning hversu hratt/hægt þetta mun ganga fyrir sig. Nærfötin mín og kryddin eru enn föst í fj........ tollinum í Rotterdam og verða það örugglega næstu vikurnar, ásamt tempur-dýnunni, dúnsænginni minni, peysunum mínum, snyrtivörunum, bókunum... allt hefur nefninlega sinn tíma hér í Hollandi er ég að átta mig á. En eins og vitur maður sagði forðum, þolinmæðin þrautir vinnur allar, amk svo lengi sem það kólnar ekki mikið meira hérna á næstu dögum. Ég hélt að það væri smá sumar ennþá og er því aðallega með sumarkjóla, sólvörn og sandala í töskunni minni en það er ansi haustlegt, vindur, skýjað, skúrir og svona 14 stiga hiti.
En fyrir verslunarþyrsta vini og ættingja sem hafa hug á að mæta í heimsókn, þá er ég komin með verslunarúntinn á hreint eftir einungis 2 daga, geri aðrir betur og.....án þess að kaupa mér nokkuð! Erum strax komin í námsmannafílinginn og í kvöldmatinn voru borðaðir afgangar tveggja síðustu daga grænmetis-baunarétta!
Over and out, Adda
Bloggar | 31.8.2007 | 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Úffff, þetta er erfitt....fyrsta bloggfærslan. Er búin að vera að mana sjálfa mig upp í þetta í allan dag en ég var víst búin að lofa þessu hægri vinstri heima á Íslandi og maður á nú alltaf að standa við gefin orð, er þaggi...
En aðalástæðan fyrir því að ég hefi ákveðið að gerast "bloggari" eru flutningar okkar til lands túlípanana og tréklossanna, Hollands, nánar tiltekið Amsterdam. Því má skjóta hér inn að ég er búin að sjá eina blómabúð hérna og þar voru bara túlípanar, grínlaust! Við mættum á svæðið í gær og hreiðruðum um okkur í íbúðinni hans Nonna frænda. Síðan erum við búin að vera í allskonar útréttingum í sambandi við dvalarleyfi og þ.h en í dag fórum við í mjög skemmtilegan könnunarleiðangur um hverfið okkar, sáum húsið okkar að utan en við fáum afhent á mánudaginn kl. 10. Hverfið lítur rosalega vel út, gatan okkar er róleg en í næstu götu eru búðir, bakarí, fatahreinsun og þ.h, veitingastaðir, pöbbar, kaffihús og svo að sjálfsögðu "coffeeshop";-). Svo fundum við skóla fyrir Alvildu sem er heila 50 metra frá dyrunum okkar, hittum skólastjórann og erum að fara að vinna í umsókn fyrir hana, þetta leit bara vel út. Vondelpark, sem er frægasti garðurinn í Hollandi, er líka við hliðina á okkur og þar var fólk að skokka út um allt. Við hjónin erum nú þegar farin að plana hlaup um leið og íþróttaskórnir okkar losna úr tollinum í Rotterdam, þeir eru svakalega strangir og leiðinlegir þar og við höfum ekki hugmynd um hvenær við fáum dótið okkar...vona að þeir séu ekki farnir að máta nýju nærfötin mín úr Victoria´s secret og sniffa kryddsafnið mitt sem að sjálfsögðu var sent yfir hafið.
Held ég ljúki hér með minni fyrstu bloggfærslu og geri heiðarlega tilraun til þess að ná honum Elmari litla frá tölvunni sinni, hér er rómantíkin í hámarki þar sem setið er sitthvoru megin við borðstofuborðið í sitt hvorum Makkanum...hhmmmmm, nördismi eða hvað:-)
Kv. Adda
Bloggar | 30.8.2007 | 19:27 (breytt kl. 19:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)